Í dag var ákveðið að fara snemma á sjóinn (kl. 3) til að geta verið búnir að draga áður en veðrið mundi versna seinnipart dags, en stundum bara fara hlutirnir ekki eins og menn ætla. Þegar við vorum rétt að fara frá stórubryggjunni skall á hið versta veður og rétt sluppum við frá því að bakka á Sæþór EA sem lá einnig við stórubryggjuna, en í staðinn tók vindurinn völdin og lentum við á grjótgarðinum við enda stórubryggjunnar og skemmdum stýrið á bátnum sem varð svo til að drapst á aðalvélinni. Var ankeri strax látið síga þar sem bátinn rak stjórnlaust frá stórubryggjunni út á fjörð. Þar sem þarna er aðalega drullubotn náði ankerið ekki festu og rak okkur hratt í átt að þorskeldinu. Kibbi vaktmaður var snöggur að ræsa áhöfnina á Sæþóri EA sem svo voru snöggir að koma okkur til aðstoðar og draga Grundfirðing að bryggju. Ekki er vitað hve mikið tjónið á stýri, skrú eða skrokk eru. Þetta er ekki skemmtileg lífsreynsla en fyrir öllu er að allir komumst við í höfn heilir. Svo núna veit maður ekki hvað næsta skref er en það verður líklegast leitað eitthvera leiða til að ná netunum okkar úr sjó og laga það sem laga þarf. Líklegast þarf Grundfirðingur að fara í slipp og er ómögulegt að gera sér grein fyrir hvað það tekur langan tíma að gera við skipið en vonandi sem stystan tíma. Þetta er auðvitað skelfilegt að lenda í þessu yfir hábjargræðistímann og líklega verður launatap áhafnarinnar töluvert af þessum sökum.