15.2.2005

Þá er maður búinn að fá smá fréttir af gangi mála með Grundfirðing, en í morgun kom Sóley SH-124 í land og eftir löndun drógu þeir Grundfirðing inn í Stykkishólm þar sem hann bíður slipptöku.  Áður en skipið var dregið inn í Hólm kafaði Sumarliði til að kanna skemmdir á skipinu og eftir hans lýsingum telja svartsýnustu menn að viðgerð gæti tekið allt að tvo mánuði.  Það á að reyna taka skipið upp í slippinn á miðnætti en óvíst að það gangi sökum veðurs í hinum Stormasama Stykkishólmi.  Samkvæmt þessum fréttum tel ég það víst að komið sé svar við spurningu sem ég varpaði fram þann 7.2.2004 „En annars er það bara hin besta tilbreyting að skipta um veiðafæri auk þess sem það gefur möguleika á meiri launum. Þ.e. auðvitað ef kallinn klúðrar þessu ekki, hver veit?“
En annars erum við að fara núna nokkrir úr áhöfninni inn í Ólafsvík til að taka á móti Sæfara ÁR (ex Fanney SH-24 & ex Grundfirðingur SH-24), sem dró upp nokkrar netatrossur fyrir okkur í dag, og munum við koma netunum, færu, drekum og baujum í kör á bryggjunni.  Aðrir bátar sem drógu upp trossur fyrir okkur í dag munu vera Sjöfn EA, Saxhamar SH og Haukabeg SH-20 og eiga áhafnir þessara báta þakkir skyldar fyrir það. Einnig eiga Kibbi Rabba og áhöfnin á Sæþór EA þakkir skyldar fyrir snögg viðbrögð í morgun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *