19.5.2005

Kom í land í gær úr veiðiferð sem verður líklegast ógleymd um langan tíma. Strax fyrsta morguninn varð ljóst að afleysingar maður sem við höfðum fengið var gjörsamlega ónothæfur, sem er ekki gott mál á skipi sem er mannað færri mönnum en gengur og gerist í línubátaflotanum. Það var nú samt mesta furða hvað strákarnir á morgunvaktinni voru hressir þegar þeir komu í hádegismat og gerðu mikið grín af frammistöðu drengsins sem fæddur var 1979. Næstu nótt flæktust fuglafælurnar í línunni á lögninni og slitnaði línan og varð úr nokkuð góð flækja sem kláraðist ekki að vinna fyrr en á landleiðinni og svo um kvöldið þegar komið var að slitinu og við vorum að taka niður slitinn rekka þá datt kokkurinn gegnum mannop á lestarlúgunni. Það vildi til happs að kokkurinn er hraustari, betur byggður og meiri karlmaður en almennt gengur og gerist, og því urðu aðeins minniháttar meiðsl á honum. Aðrir sem voru á dekkinu fengu því áfallahjálp en kokkurinn kaffi og súkkulaði sem hann felur fyrir áhöfninni. Svo loka daginn þá bæði slitnaði línan og þá bilaði stjórnborðs lensudæla á millidekkinu og þurfti því að taka dælu sem var bakborðs megin og setja í hennar stað og töfðumst við nokkuð við þetta og vorum það seint í landi að örugglega fór að sjóða á ónefndum yfirmanni vinnslunnar í landi.

Kokkurinn slasaði
Neðst vinstra megin sést línurekkinn sem kokkurinn var með á öxlinni þegar hann datt gegnum mannopið við enda rekkans. Einnig sést lína um allt dekk úr flækjunni og menn að greiða flækju hægra megin á myndinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *