Ekki fór svo að ég færi nema einn dag með Grettir og hef ég því aðeins róið 5 daga með þeim. Ég fór hins vegar á laugardagsmorguninn með Helga SH-135 til togveiða. Túrinn tók 72klst og var aflinn rétt rúmlega 2 gámar. Þetta vakti upp margar gamlar minningar að fara þarna um borð því þarna var margt líkt með Runólfi SH nema auðvitað allt minna. Þarna voru líka nokkrir fyrrverandi vinnufélagar, Addi skipstjóri, Hemmi vélavörður og Gummi Jóns. Þarna vantaði þó menn til að fullkomna samlíkinguna við Runólf. Mér sýndist Addi vera svipaður skipstjóri og Runni frændi hans, þ.e. afskaplega rólegur og laus við allt stress. Hemmi var þarna vélavörður en maður var vanur því að hann væri vaktformaður og áttaði ég mig ekki alveg á því fyrr en í miðjum túr að Hemmi hafði ekkert með dekkstjórn að gera lengur. Í þeirri stöðu var nú reyndar annar góður maður, Gummi Jóns en staðan kallast víst netamaður á þessu skipi. Þarna vantaði þó Vigga Runna sem var í frí en örugglega hefði verið gaman að hann þarna. Aðrir menn þarna um borð voru, Óli Fjalar (stýrimaður), Finni (matsveinn), Stebbi húsvörður (vélstjóri), Ásmundur Hólmari (háseti) og Villi bakari úr Hólminum (háseti). Af þessum mönnum hef ég áður verið á sjó með Óla Fjalari þegar hann leysti af einn túr sem stýrimaður á Grundfirðing, Villa þegar hann kom með sem háseti á Grundfirðing í Janúar og Ásmundi þegar hann kom eitthverja túra á Hring SH-535 þegar ég var að vinna þar.. Við þurftum víst að leita til hafnar í Grundarfirði í miðjum túr, því það brotnaði skórinn undan öðrum hleranum, og varð að skipta þeim út fyrir varahlerapar sem var í landi. Skipið er nú ekki nógu stórt til að geyma aukahlera um borð og er einnig aðeins eitt troll þarna. Á heimleiðinni var trollið allt yfirfarið og fékk ég þá að rifja aðeins upp bættningarkunnáttuna.