Flensa

Komum í land í gær en ég var voðalega slappur og gerði nánast ekki neitt.  Búinn að vera með flensuskít síðustu daga og var síðasti túr mjög svo erfiður fyrir mig.  Það er þó kannski smá kaldhæðni í örlögunum því nákvæmlega fyrir 10 árum var ég fárveikur um borð í Fanney SH-24, á línuveiðum með beitingarvél.  Þá var matarlystin eitthvað ekki góð og gat ég ekki klárað hádegismatinn og hafði matsveinninn (Haraldur R. Magnússon), orð á því hvort ekki væri allt í lagi.  Eftir svo smá vinnu út á dekki fór ég að fá verk í magann, var sljór, svitnaði mikið en var að deyja úr kulda.  Þá var mér hent í koju, og hafður undir eftirliti uns við komum í land en þá var ég sendur á sjúkrahúsið á Akranesi.  Núna var ég hins vegar listarlaus og slappur mest allan túrinn og stundum svitnaði ég mikið og stundum var mér ægilega kalt.  Reyndar held ég að ég hafi slegið öll svitamet á sunnudagsmorguninn og er hætt við að allur vetrarforðinn sem ég var búinn að safna utan á mig í Moldavíu sé horfinn.  Vegna þess hvernig örlögin hafa verið er best að vera ekki að storka þeim og því best að panta mér frí 12-17.janúar 2015.  Vitanlega var ekki um sömu sjúkdómana að ræða því 1995 var það botnlanginn en 2005 flensa.

Svo er ég að vinna í að setja inn ferðasöguna og fara hlutar úr henni að koma inn fljótlega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Valmynd / Menu